top of page

Réttarfars- og stjórnskipunarmál

Ríkinu ber að setja lög, veita löggæslu og dæma í dómsmálum. Ef ríkið sér ekki um þessa hluti eru allar líkur á að frelsið verði lítið.

 

Lög eiga að vera einföld og almenn. Stjórnarskráin á að vera sterk og vernda frelsið. Dómendur dæma eingöngu eftir lögunum og þeirra hlutverk er að leita að hinni réttu niðurstöðu, ekki að búa hana til.

 

Virða ber regluna um sönnunarfærslu í sakamálum. Ekki má dæma mann til refsingar nema sannast hafi að hann sé sekur. Aldrei má snúa sönnunarbyrði við, slíkt býður upp á grófa misnotkun á dómskerfinu. Koma skal í veg fyrir með öllum ráðum að dómskerfið, sem á að vernda borgarana, sé notað til illra verka gegn þeim.

 

Tilgangur refsinga má aldrei vera hefnd, heldur að fækka glæpum í framtíðinni. Refsing kann stundum að fela í sér betrun, þótt stundum kunni hún að gera illt verra. Refsing fælir að minnsta kosti fólk frá því að fremja glæpi. Glæpamaður fremur heldur ekki glæpi á meðan hann er í fangelsi.

 

Dauðarefsing er óréttlætanleg. Allir eiga rétt til lífs, líka glæpamenn. Mistök verða líka við dóma eins og allt annað. Dauðarefsing verður aldrei tekin til baka eftir að mistök koma í ljós.

 

Alþingismönnum má fækka og jafna atkvæðavægi fullkomlega. Ráðherrum mun fækka með minna hlutverki ríkisvaldsins. Leggja má forsetaembættið niður, enda er það óþarft.

bottom of page