top of page

Heilbrigðismál

Rekstur heilbrigðisstofnana væri betur kominn í höndum einkaaðila. Rekstur á spítala eða læknastofu lýtur sömu lögmálum og allur annar rekstur, veita þarf sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Á þessum stofnunum vinnur fólk, eins og annars staðar. Þar eru notuð tæki, eins og annars staðar. Stofnanirnar eru í húsum, eins og önnur fyrirtæki. Allt þarf að skipuleggja og reka jafn vel og hægt er, eins og hjá venjulegum fyrirtækjum. Enginn er betur fallinn til að reka fyrirtæki en einstaklingar sem eiga þau og hafa hag af því að þeim gangi vel.

 

Sumir telja að heilbrigðiskerfið sé svo mikilvægt að hinum frjálsa markaði sé ekki treystandi fyrir því. Matvæli eru lífsnauðsynleg, samt eru þau framleidd og seld á frjálsum markaði. Húsnæði er lífsnauðsynlegt, samt er það reist og selt af einkaaðilum. Hinu opinbera er ekki jafn vel treystandi og einkaaðilum til að gera nokkuð af þessu.

 

Byrja má á því að aðskilja rekstur og greiðslu heilbrigðisþjónustu. Þannig getur ríkið haldið áfram að greiða fyrir hana með almannatryggingum án þess að skipta sér af rekstrinum. Næsta skref er svo að einkavæða almannatryggingarnar þannig að fólk kaupi sér heilbrigðistryggingar eins og aðrar tryggingar.

 

Gæta þarf að því að læknar og sjúkrahús hafi ekki hvata og völd til að ná peningum úr almannatryggingum, til dæmis með því að veita sjúklingum óþarfa þjónustu og fá greitt fyrir. Þetta er til að mynda hægt að leysa með óháðri greiningu sjúkdóma. Eftir að tryggingakerfið hefur verið einkavætt sér hinn frjálsi markaður um að leysa þetta á sem bestan hátt. Til dæmis er hægt að gera það að hluta með því að greiða fasta greiðslu vegna ákveðinna sjúkdóma og láta kostnaðinn við lækningu ekki ráða upphæðinni.

 

Eftir að almannatryggingar hafa verið einkavæddar er hægt að halda áfram að styðja þá sem ekki hafa efni á tryggingum. Settar verða á fót góðgerðarstofnanir sem sjá um þetta. Síðustu skrefin verða svo að leyfa skattgreiðendum að ákveða sjálfir hve mikið þeir greiða til þessara stofnana og koma síðan stofnununum úr höndum ríkisvaldsins. Ekki ber að leggja þær niður, heldur efla þær með því að koma þeim til einstaklinga. Fjallað er um þetta í kafla um félagsmál.

 

Mikilvægt er að fólki sé í sjálfsvald sett hve mikið það styður aðra. Fólk sem ekki greiðir skatta fer í fangelsi eða er beitt öðrum viðurlögum. Það er óréttlætanlegt að beita slíkri hótun um ofbeldi og útskúfun til að fá fólk til að hjálpa öðrum.

 

Skattheimta kemur sennilega fyrst og fremst niður á frjálsum framlögum til ýmissa góðgerðarmála. Fólk lítur svo á að það hafi þegar lagt sitt af mörkum þegar það hefur greitt skattana. Þegar búið er að koma góðgerðarmálum úr höndum ríkisvaldsins lítur fólk ekki lengur á það sem hlutverk ríkisins að styðja þá sem ekki hafa efni á mikilvægri þjónustu. Fólk vill styðja þá einstaklinga, eins og kemur fram í því að stjórnmálaflokkur sem myndi vilja leggja slíkan stuðning niður myndi ekki fá mikinn stuðning hjá kjósendum.

 

Margvísleg rök hníga að því að góðgerðarmálum verði betur komið í höndum einkaaðila. Góðgerðarmál verða rekin af meiri ástríðu og krafti þegar þau eru á könnu einstaklinga en ekki hins opinbera. Einnig getur skapast nokkurs konar samkeppni á milli góðgerðarstofnana um það hverjar nýta fjármagnið best í þágu þeirra sem þurfa á því að halda.

 

Við hið frjálsa fyrirkomulag verður ekki aðeins ódýrara að fá góða þjónustu, þannig að fleiri geti greitt fyrir hana, heldur mun fólk hafa meira á milli handanna til að styðja þá fáu sem ekki hafa efni á henni. Allar líkur eru á að heilbrigði tekjulágra verði mun meira en ella.

 

Jafnvel mun meiru fé verður veitt í heilbrigðismál en ella, þótt hagræðing náist. Það er vegna þess að fólk mun hafa frelsi til að kaupa meiri þjónustu en ríkið er núna tilbúið til að veita.

bottom of page