top of page

Félags- og góðgerðarmál

Koma ber öllum styrkjum hins opinbera til góðgerðarmála, svo sem styrkjum vegna menntunar, heilbrigðisþjónustu og húsnæðis, í sérstakar stofnanir sem eru aðgreindar frá rekstri þjónustunnar. Þá er hægt að einkavæða þjónustuna án þess að ríkið hætti stuðningi við þá sem þess þurfa, eins og fjallað er um í köflum um heilbrigðis- og menntamál.

 

Hægt er svo að efla þessar góðgerðarstofnanir með því að að koma þeim úr höndum ríkisvaldsins. Þannig myndu þær verða reknar af meiri krafti og ráðdeild. Samkeppni gæti orðið á milli mismunandi stofnana um hverjar nýttu fjármagnið best í þágu þeirra sem þyrftu á því að halda. Einstaklingar myndu fylgjast betur með félagsmálum og verða fljótari til að bæta úr vandamálum og loka glufum en ríkið hefði verið.

 

Til að byrja með myndi hið opinbera innheimta gjöldin til þessara stofnana í gegn um skattkerfið. Smám saman myndu skattgreiðendur fá meira valfrelsi um hvað og hve mikið þeir styðja. Að lokum væri framkvæmd greiðslunnar einnig komin úr höndum ríkisins.

 

Góðgerðarstarfsemi einstaklinga er fyllt meiri ástríðu en starfsemi hins opinbera. Meira verður um sjálfboðastarf þar sem fólk hjálpar náunganum. Oft er mannleg hjálp betri en fjárhagslegur styrkur. Meiri nálægð verður á milli styrkjandans og þess sem þiggur styrkinn. Þess vegna mun þiggjandinn finna til meiri ábyrgðartilfinningar og þegar mögulegt er kann það að hvetja hann til dáða og veita honum andlegan styrk.

 

Fólk vill styðja þá sem þurfa á því að halda. Þess vegna vill það að ríkið taki það að sér. Sennilega gerir fólk sér ekki grein fyrir hinum miklu kostum þess að einstaklingarnir taki það að sér. Það gerir sér jafnvel ekki grein fyrir því að almennur vilji er til að veita svona stuðning. Stuðningur af hálfu einkaaðila er lítill núna vegna þess að ríkið hefur tekið stuðninginn að sér. Fólk lítur á þetta sem hlutverk hins opinbera, það hafi lagt sitt af mörkum með sköttum.

 

Frjáls framlög eru ekki eingöngu vænlegri til árangurs en skattheimta hins opinbera. Þau eru einnig eina réttlætanlega leiðin til að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Skattheimta er framkvæmd með hótun um ofbeldi. Sá sem neitar að greiða er beittur viðurlögum. Starfsemi sem byggist á slíku getur ekki talist góðgerðarstarfsemi.

bottom of page