top of page

Samgöngumál

Með nýrri tækni er einkarekstur vega orðinn fýsilegri en áður. Hægt er að hefjast fljótlega handa við einkavæðingu þjóðvegakerfisins. Vel hefur gengið að reka Hvalfjarðargöngin og innheimta þar veggjald. Svipað fyrirkomulag er hægt að taka upp víða um land, ekki bara við jarðgöng. Þetta er mikilvægt til að auka kostnaðarvitund vegfarenda. Fáir skeyta nú um kostnaðinn sem í vegunum felst. Samkeppni getur skapast, þar sem hægt er að fara mismunandi leiðir á milli staða. Einkavæðing er forsenda meiri hagkvæmni og bættrar þjónustu.

 

Einfaldast er að rukka veggjald með rafrænum hætti. Skynjarar geta numið hver keyrir hvar og hægt er að safna öllum upplýsingum saman og senda reikning. Hugsanlega verður fyrirkomulagið þannig að veggjald er fyrirframgreitt, þannig að menn gangi á inneign með akstri sínum. Kostnaður við rekstur bíls á ekki að aukast, enda verða skattar á eldsneyti lagðir niður.

 

Deilur um hagkvæmni jarðgangnagerðar munu ekki lengur verða á vettvangi stjórnmálanna. Fólk mun kjósa jarðgöng með því að keyra um þau. Fólk mun hafa meira á milli handanna til að greiða veggjöld við göngin, meðal annars vegna afnáms eldsneytisskatta.

 

Stofnbrautir í þéttbýli má einnig einkavæða. Haga má einkavæðingunni og uppbyggingu vegakerfis þannig að samkeppni liggi sem beinast við.

 

Íbúagötur geta verið í sameign íbúanna, rétt eins og stigagangar í fjölbýlishúsum. Meiri kaupmáttur verður til staðar til að greiða fyrir gatnagerð, enda falla gatnagerðargjöld niður og skattar lækka.

 

Verslunargötur geta verið í eigu verslana, enda sjá þær hag sinn í því að veita sem best aðgengi. Bílastæði geta einnig verið í einkaeigu, stundum myndu verslanir leyfa fólki að leggja án endurgjalds, en sennilega þyrfti að greiða fyrir sum stæði.Sumar götur kunna að verða fjármagnaðar með auglýsingum.

 

Einkarekstur á þessu sviði mun auka hagkvæmni til muna, rétt eins og á öðrum sviðum. Götur verða betri og lagðar á hagkvæmari hátt. Hugsanlegt er að greiðslur séu mismunandi eftir umferðarhraða, enda vilja eigendur vega að þeir séu öruggir en umferð gangi þó greiðlega fyrir sig.

bottom of page