top of page

Sjávarútvegsmál

Séreignarréttur á náttúruauðlindum er mikilvægur til þess að þeim sé ráðstafað á sem bestan hátt. Fiskistofnarnir eru takmarkaðir og ekki má veiða of mikið úr þeim. Rök benda til þess að rétt sé að takmarka veiddan afla. Best er að takmarka veiddan afla með kvóta á hann beint en ekki reyna að stýra honum óbeint í gegn um fjölda sóknardaga eða stærð og fjölda skipa. Slík óbein stýring skapar óhagkvæmni. Sóknardagastýring gerir til dæmis að verkum að of mikla fjárfestingu þarf til að veiða aflann og nýtist hún ekki þá daga sem veiði er óheimil. Stýring á stærð og fjölda skipa er ósveigjanleg og kemur í veg fyrir að hagkvæmasta gerð skipa sé notuð.

 

Kvótakerfi, sem byggir á framseljanlegum kvóta, aflamarki, leitar hagkvæmustu lausna til að veiða aflann. Framseljanleiki kvótans gerir það að verkum að hann lendir frekar í höndum þeirra sem kunna best með hann að fara. Laga ber núverandi kerfi með því að gera það að hreinu kvótakerfi.

 

Ekki ber að leggja sérstaka skatta á sjávarútveg. Fjármunir þeir sem skapast í sjávarútvegi eru betur komnir í höndum einkaaðila en ríkisins. Skattar eru til þess fallnir að valda rekstrarerfiðleikum í útgerðinni og riðla rekstraráætlunum.

 

Nýmyndun eignarréttar verður að eiga sér stað á öllum náttúruauðlindum. Ekki ber að taka kvótann úr höndum þeirra sem hann eiga núna, fremur en taka á land af landeigendum. Ekki verður sett út á að kvóta hafi verið úthlutað til aðila með veiðireynslu þegar kvótakerfinu var komið á. Þeir aðilar hefðu orðið fyrir miklu tjóni hefði þeim ekki verið bætt sú takmörkun á veiði sem fólst í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Úthlutunin byggðist á því að þeir sem voru að nýta auðlindina fengu að nýta hana áfram. Aðferðin er í sjálfu sér ekki ólík landnámi.

 

Hvort sem fólk er sammála því að úthlutun kvóta hafi verið eðlileg á sínum tíma er erfitt að finna rök fyrir því að taka veiðiheimildirnar af þeim sem þær hafa. Fáum dettur í hug að taka til baka ríkisstyrki sem veittir hafa verið í fortíðinni. Enginn heyrist mæla fyrir því að bændur verði látnir greiða framleiðslustyrki til baka, þótt augljósara sé að þar sé um að ræða styrki.

 

Við þetta má bæta að veiðiheimildirnar hafa hækkað í verði. Ef taka ætti þær til baka þyrfti að meta verðmæti þeirra eins og það var við úthlutun og bæta eingöngu vöxtum við, hversu rangt sem það er. Fáum myndi detta í hug að taka veiðiheimildir af útgerðarmönnum ef þær hefðu verið seldar á uppboði á sínum tíma, en þeir svo styrktir um jafn háa upphæð og þeir keyptu fyrir. Það er þó nákvæmlega eins og það sem hefur gerst. Í stað þess að hafa fengið styrki og keypt veiðiheimildir fengu útgerðir þær endurgjaldslaust, sem er í raun það sama.

 

Einnig hafa veiðiheimildir skipt um hendur. Eigendur þeirra núna eru ekki endilega þeir sem fengu þeim úthlutað, heldur hafa þeir gjarnan borgað fullt verð fyrir. Það væri illa gert að taka veiðiheimildirnar af þeim svo að þeir þurfi að kaupa þær aftur.

bottom of page