top of page

Landbúnaðarmál

Styrkir, höft og verndartollar hafa valdið miklum vandræðum í landbúnaði. Komið hefur verið í veg fyrir hagræðingu í landbúnaði með höftum. Styrkir og verndartollar gera að verkum að neytendur fá rangar upplýsingar um hvort betra sé að kaupa innlendar eða erlendar landbúnaðarvörur. Hefði frelsi ríkt í landbúnaði hefðu menn horfið frá búskap hraðar og bú væru sennilega stærri og hagkvæmari. Nú hafa bændur einnig tekið ákvarðanir um búskap, byggðar á styrkjakerfinu. Með afnámi þess myndu ýmsir verða fyrir meira höggi en ef hlutirnir hefðu fengið að hafa sinn gang í upphafi.

 

Áður fyrr starfaði nánast öll þjóðin við landbúnað. Sem betur fer hafa orðið framfarir, þannig að fólk hefur getað snúið sér að öðru. Framfarir birtast þannig að það borgar sig ekki lengur að vera með jafn marga í vinnu við landbúnað, þannig þurfa menn að hætta og finna sér eitthvað annað að gera. Þetta er eðlilegt og ber að líta á það sem heilbrigðar framfarir, en ekki berjast á móti því.

 

Vegna þeirrar vondu stöðu sem búið er að koma mörgum bændum í ef styrkjakerfið er afnumið hratt er skynsamlegt að veita aðlögunartíma. Í stað þess að inna greiðslur áfram af hendi til bænda með sama hætti og verið hefur, er hægt að gefa út skuldabréf til þeirra. Ef þeir kjósa að eiga skuldabréfin munu þeir fá jafn miklar greiðslur af þeim og þeir hefðu ella fengið í nokkurn tíma, t.d. áratug. Þeir hafa aftur á móti núna annan valkost einnig, að selja skuldabréfin. Þannig fá þeir dágóða upphæð strax, í stað greiðslna yfir langt tímabil. Þetta gefur mörgum þeirra gott tækifæri til að hætta búskap, þar sem það fé gæti nýst þeim í nokkurn tíma á meðan þeir fyndu sér annan starfsferil.

 

Þetta fyrirkomulag afnemur galla styrkjakerfisins í einu lagi. Öll höft á landbúnað mætti afnema samhliða. Hagræðing gæti átt sér stað og búin orðið betri. Þessi aðferð skapar einnig bændum tækifæri til að hætta með reisn, í stað þess að hrekja þá smám saman frá búskap með fátækt. Útgáfa skuldabréfanna gæti verið ódýrari fyrir hið opinbera en núverandi kerfi, útgreiddar upphæðir væru svipaðar og ella í nokkur ár, en svo væri þeim lokið og styrkjakerfið úr sögunni.

 

Afnema ber skyldu sem hið opinbera leggur á bændur við gæðastjórn. Einkaaðilar sjá sér hag í því að stunda skynsamlega gæðastjórn. Neytendur vilja frekar kaupa góðar vörur. Frjáls markaður er best til þess fallinn að finna hvernig gæðastjórn er best háttað.

bottom of page