top of page

Utanríkismál

Landvarnir, vörn þegnanna gegn ofbeldi utan frá, er í eðlilegu hlutverki ríkisvaldsins. Skynsamlegt að hafa varnarsamning við Bandaríkin, þjóð sem deilir hugmyndum okkar í grundvallaratriðum. Slíkur samningur er eðlilegur, enda telja báðir aðilar sig hagnast á honum. Vera Íslands í NATO er skynsamleg, enda er vænlegra fyrir friðelskandi þjóðir að standa saman gegn hugsanlegum árásum. Hugsanlega mun tíminn krefjast þess að Íslendingar setji her á fót. Það mun koma í ljós. Herskylda er þó með öllu óréttlætanleg. Aldrei getur talist réttlætanlegt að senda mann í bardaga án hans samþykkis.

 

Íslendingar skulu stunda frjáls viðskipti við þjóðir heims. Tollar og höft eru slæm. Líklegast til árangurs fyrir fátækar þjóðir er að stunda frjáls viðskipti. Hvetja má fátækar þjóðir til að aflétta þeim höftum sem hafa komið í veg fyrir velsæld þeirra.

 

Aðild að Evrópusambandinu kemur ekki til greina. Evrópusambandið er ekki fríverslunarbandalag, heldur nokkurs konar ríkisvald, sem leggur ýmis höft á aðildarþjóðirnar. Ef Ísland á að geta haldið áfram á braut frelsis má það ekki ganga í Evrópusambandið.

 

Minnka ber starfsemi sendiráða erlendis og sjá til þess að þau sinni eingöngu málum sem eiga að vera í hlutverki ríkisvaldsins. Sendiráð eiga ekki að skipta sér af viðskiptamálum.

bottom of page