top of page

Viðskipta og efnahagsmál

Einkavæðing

Selja ber sem flest ríkisfyrirtæki einkaaðilum. Það er mikilvægt til þess að reksturinn megi batna með aðhaldi frá eigendum sem fara með eigið fé. Það mun skila sér í meiri arði til hluthafa, betri kjörum starfsmanna og betri þjónustu og lægra verði til neytenda. Sem dæmi um stofnanir og rekstrareiningar sem má byrja á eru ríkisbankarnir, Landssíminn, Íslandspóstur, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið. Skipta má einhverjum þessum stofnunum niður og selja í hlutum.

 

Selja ber fyrirtæki á markaðsverði hverju sinni, því verði sem einhver er tilbúinn að kaupa þau á. Ríkið á ekki að halda að sér höndum við einkavæðingu vegna þess að það telji að verð muni hækka. Yfirleitt er ómögulegt að segja til um hvenær og hvort verð muni hækka. Að bíða með að selja er jafn órökrétt og að ríkið kaupi fyrirtæki á markaði vegna þess að verð sé lágt að mati stjórnvalda. Það er mikilvægt að koma ríkisstofnunum í hendur einkaaðila sem fyrst, jafn mikilvægt og að ríkið kaupi ekki fleiri fyrirtæki og geri að ríkisstofnunum.

 

Ríkið á heldur ekki að bíða með sölu vegna þess að það sé að reyna að bæta rekstur ríkisstofnana til að gera þær að betri söluvöru. Ástæða einkavæðingarinnar er sú að ríkisrekstur er ekki jafn ákjósanlegur og einkarekstur. Einkavæðingin er gerð í þeim tilgangi að bæta reksturinn. Ef möguleikar eru á hagræðingu verða þeir einkaaðilum ljósir og verð stofnananna tekur mið af því. Einkaaðilar munu svo að jafnaði bæta reksturinn meira en ríkið hefði gert.

 

Að lokinni einkavæðingu á þeim fyrirtækjum sem hér hafa verið nefnd má taka til við sölu menningarstofnana, skóla, spítala, vegakerfis og fleiri stofnana sem minni sátt er á þessari stundu um að selja. Fjallað er um þessar stofnanir í öðrum köflum.
 

Ríkisrekstur

Þótt ríkið sé ekki vel til þess fallið að sýna ráðdeild ber því að reyna það eftir fremsta megni.

Skattar

Lækka ber skatta eins og unnt er og einfalda skattkerfið. Fækka ber sköttum og stefna má að aðeins einum skatti, tekjuskatti einstaklinga. Einungis skal vera eitt skattþrep. Styrki til tekjulágra skal taka út úr skattkerfinu áður en slíkum styrkveitingum verður komið í hendur einkaaðila.

 

Skattar eru innheimtir með hótun um upptöku eigna og fangelsisvist í sumum tilvikum. Slíkt hlýtur að teljast ofbeldi. Ekki er réttlætanlegt að fá fólk til að styðja til dæmis velferðarmál og menningarmál með ofbeldi. Stuldur er rangur og illur.

Skattar ýta einnig undir óhagkvæmni, því þeir brengla þau skilaboð sem berast milli manna á markaðnum. Skattlagðar athafnir eru síður framkvæmdar.

 

Skattgreiðendur skulu fá sundurliðun frá hinu opinbera á því hvert skattarnir þeirra fara. Smám saman munu þeir geta valið hvort þeir láti fé sitt renna til einstakra liða. Fjallað er um þetta í kafla um félagsmál.

Peningamál

Til lengri tíma litið ber að stefna að samkeppni í peningamálum. Einkaaðilum skal vera heimilt að gefa út peninga í samkeppni við Seðlabankann. Líkur eru á að einkaaðilum takist betur til við að tryggja stöðugleika gjaldmiðla en hinu opinbera. Einnig ber að einkavæða Seðlabankann í framtíðinni.

 

Ný tækni gerir samkeppni gjaldmiðla auðveldari en áður. Auðveldara verður að nálgast verð á vörum í mismunandi myntum. Hver og einn getur verið með bankainnistæður sínar í gjaldmiðli eða öðrum eignum sem honum sjálfum henta. Líkur eru á að við frjálst fyrirkomulag muni verðbólga verða úr sögunni, þar sem gjaldmiðlar geti verið tryggðir með vaxtaberandi eignum. Seljanleiki gjaldmiðla verður tryggður af útgefendum og bönkum á millibankamarkaði. Efnahagslífið mun aðlagast með því að hætta að gera samninga, til dæmis um laun, sem gera ráð fyrir verðbólgu í framtíðinni.

Tollar

Leggja ber alla tolla niður. Tollar gera að verkum að neytendur velja ekki þær vörur sem hagstæðast er að kaupa. Ef ódýrara er að flytja vöru inn en að framleiða hér á landi, bendir það til þess að vinnuafli og fjármunum sé betur varið í annað hérlendis. Ef íslenskt framleiðslufyrirtæki getur ekki keppt við innflutning er það vegna þess að það er líka í samkeppni við íslensk fyrirtæki um vinnuafl, húsnæði, orku og aðra framleiðsluþætti. Þannig verður notkun þessara framleiðsluþátta dýrari á Íslandi en hjá samkeppnisaðila í útlöndum vegna þess að hérlendis er hægt að nýta þá betur í aðra hluti. Fjármunir og vinnuafl munu finna sér verkefni þar sem eftirspurn er.

 

Bann við innflutningi og framleiðslustyrkir hafa sömu slæmu áhrif og tollar, koma í veg fyrir að það sé framleitt sem best er að framleiða.

 

Af þessu er ljóst að best er fyrir alla að tollar og framleiðslustyrkir séu ekki til staðar svo að fólk geti valið sér þá starfsemi sem skynsamlegast er og njóti lægra verðlags. Hins vegar er sá fortíðarvandi til staðar að fjöldi fólks hefur nú þegar valið sér óhagkvæmar atvinnugreinar vegna þess kerfis sem nú er við lýði. Það fólk treystir jafnvel á að núverandi kerfi verði haldið við. Skynsamlegt er að veita því fólki aðlögunartíma.

Samkeppnismál

Leggja ber Samkeppnisstofnun niður. Fólk skal leita til dómstóla ef það telur samninga svikna.

 

Ekki þarf sérstök lög eða stofnanir til að tryggja samkeppni. Ef fyrirtæki er með mikla markaðshlutdeild er það vegna þess að neytendur kjósa að versla við það. Hugsa má sér að stórt fyrirtæki geti lækkað verð tímabundið til að reyna að halda minni fyrirtækjum fyrir utan markaðinn. Stór fyrirtæki eru ekki í betri aðstöðu en lítil til að lækka verð. Að sumu leyti má segja að þau séu í verri aðstöðu. Lítil fyrirtæki hafa mikið að græða á því að lækka verð, þau geta aukið markaðshlutdeild sína mikið og þurfa að kosta minnu til vegna þess að þau eru með litla sölu. Ábatinn er meiri í samanburði við kostnað en hjá stórfyrirtæki sem þarf að lækka verð á mikilli sölu til að vinna litla markaðshlutdeild. Til þess að fjármagna verðstríð af þessu tagi hafa bæði lítil og stór fyrirtæki aðgang að fjármagnsmörkuðum.

 

Af þessum völdum getur möguleikinn einn á því að samkeppni komi til haldið verði niðri hjá fyrirtækjum með mikla markaðshlutdeild.

 

Eðlilegt er að stór fyrirtæki njóti stærðarhagkvæmni í samkeppni, enda er stærðarhagkvæmni æskileg. Að sama skapi er eðlilegt að lítil fyrirtæki njóti þess að vera sveigjanleg og gagnsæ í rekstri.

 

Ekki ber ríkinu að skipta sér af auglýsingum fyrirtækja. Fólk getur leitað til dómstóla ef það hefur verið narrað til viðskipta á fölskum forsendum. Þar að auki ættu fyrirtæki að sjá sér hag í því að birta áreiðanlegar auglýsingar til að skapa sér traust.

 

Ríkinu ber ekki heldur að skipta sér af verðmerkingum. Ríkið veit ekki betur en neytendur og fyrirtæki hvort og hvernig verðmerkja á vörur. Verðmerkingar ráðast, eins og verð, á frjálsum markaði.

 

Tilvist stofnana eins og Samkeppnisstofnunar byggist á því að opinberir starfsmenn geti vitað betur en frjáls markaður hvað sé gott fyrir neytendur. Það er afar ólíklegt. Ef einstaklingar telja sig hafa slíka vitneskju geta þeir reynt hana á eigin vegum á frjálsum markaði og boðið upp á það sem þeir telja neytendum hagstætt. Vald opinberra stofnana á markaði er til þess fallið að auka óhagkvæmni og hækka verð.

Eftirlit og staðlar

Fjármálafyrirtækjum ber að fara að lögum eins og öðrum fyrirtækjum. Ekki þarf sérstaka eftirlitsstofnun til að fylgjast með þeim. Vilji fjármálastofnanir skapa sér traust geta þær gert það sjálfar með óháðri vottun eða einkareknum eftirlitsaðilum. Fjármálaeftirlitið ber að leggja niður.

 

Ríkinu ber að leggja niður kvaðir á framleiðendur varnings og veitendur þjónustu. Neytendur velja vörur og þjónustu eftir eigin smekk. Ef þörf er á því að staðla vörur eða votta gæði geta einkaaðilar séð um slíkt.

bottom of page