Menningarmál
Margs konar menningarstarfsemi er studd af hinu opinbera á Íslandi. Þann stuðning ber að afnema með öllu, í skrefum.
Sú skoðun er útbreidd að rekstur margvíslegrar menningarstarfsemi gangi ekki nema ríkið styðji. Hún er gjarnan röng. Listir eru allar stundaðar vegna þess að fólk hefur af þeim yndi. Fólk vill heyra tónlist, sjá leikrit og kvikmyndir, lesa bækur og njóta myndlistar. Ekki þarf að óttast að neytendur neysluþjóðfélagsins veiti sér ekki þann munað að njóta lista. Einstaklingar geta og hafa rekið leikhús, tónlistarhús, kvikmyndafyrirtæki, útgáfufyrirtæki og gallerí. Stundum hefur það þó gengið brösulega, enda hafa slík fyrirtæki verið í samkeppni við opinberar stofnanir sem notið hafa fjármuna ríkissjóðs.
Rekstur menningarfyrirtækja er verri en hann væri ef þau væru rekin af einstaklingum sem ættu þau og hefðu hag af sem bestum rekstri. Þau myndu koma betur til móts við þarfir listunnenda og skapa fyrirtækjum sínum og listamönnum meiri vinsældir. Hagræðing væri einnig meiri. Listamenn myndu fá meiri tekjur. Kæfandi hrammur ríkisvaldsins hefði sleppt þeim.
Listir eru fyrir listunnendur, neytendur listarinnar. Ef neytendur listarinnar eru ekki tilbúnir að borga það sem listin kostar finnst þeim hún ekki kostnaðarins virði. Þá er hún ekki kostnaðarins virði. Sum list sem nú er stunduð myndi ekki bera sig í frjálsræðisskipulagi. Það er þá vegna þess að hún á ekki að bera sig. Það hlýtur að vera augljóslega óréttlætanlegt að innheimta skatta með hótun um viðurlög til þess að sumir listamenn geti stundað listir sínar.
Sumir listunnendur líta með vanþóknun á suma aðra neyslu einstaklinganna. Þeim finnst fólk sýna bílum, farsímum og utanlandsferðum meiri athygli en hinum göfugu listum. Til þess að stemma stigu við þessu dettur mönnum í hug að veita meira opinberu fjármagni til lista. Það er röng leið til að snúa vörn í sókn. Sennilega hefur fólk mikinn áhuga á þessum sviðum vegna þess að þar starfa einkafyrirtæki. Hjá einkafyrirtækjum starfa menn með meiri hvata til að ná til fólks en ríkisstarfsmenn. Rétta leiðin til að auka áhuga á göfugum listum er að einkavæða menningarstofnanir.
Unnendur lista verða líka að skilja að með niðurfellingu ríkisútgjalda til menningarmála koma skattalækkanir sem auka kaupmátt þeirra. Fleiri skattalækkanir koma vegna niðurfellingar útgjalda til annarra málaflokka, t.d. íþrótta, landbúnaðar og annarra atvinnugreina. Hver sérhagsmunahópur verður að skilja að í heildina verður kaupmáttur álíka mikill til að byrja með og miklu meiri þegar fram í sækir vegna hagræðingar. Menn geta kannski talið sig óheppna ef þeir eru í eina sérhagsmunahópnum sem missir styrki, en ekki ef allir hóparnir missa þá og skattar á alla lækka. Það er öllum sérhagsmunahópum til hagsbóta að leggja styrkina niður, svo heilbrigt skipulag geti komist á. Hinn frjálsi markaður hvetur einstaklingana til dáða og eykur kaupmátt þeirra á öllum sviðum. Samkeppni um styrki hins opinbera er engum til hagsbóta.