top of page

Umhverfismál

Skilgreina ber eignarrétt á umhverfinu að því marki sem hægt er. Ríkið skal selja landareignir sínar hæstbjóðendum.

 

Með einkaeign á náttúru landsins eru líkur á að hún verði betur nýtt og hennar verði betur gætt en ella. Kostnaður vegna nýtingar lands verður til dæmis betur tekinn með í reikninginn þegar stóriðju er komið á fót í náttúrunni. Í ljós kemur hvorir hagsmunirnir eru meira virði, að landið sé ósnert eða að það sé nýtt til iðnaðar. Landsvæði getur til dæmis skapað tekjur í framtíðinni af ferðamönnum. Einnig kunna ýmsir að vilja leggja sitt af mörkum við að kaupa land til að forða því frá nýtingu í iðnað. Náttúruverndarsinnar og fólk í ferðamannaþjónustu geta sameinast um að bjóða í landsvæði á móti iðnfyrirtækjum. Svona er hægt að vega saman mismunandi hagsmuni, með viðskiptum á frjálsum markaði.

 

Engum skal vera heimilt að menga landsvæði annarra eða skapa öðrum hættu með starfsemi sinni. Sá sem þarf að stofna til áhættusams iðnaðar þarf að eiga nógu mikið landsvæði svo hann stefni öðrum ekki í hættu, nema hann fái samþykki frá nágrönnum sínum. Stundum kunna iðnfyrirtæki að kaupa slíkt samþykki.

 

Séreignarrétturinn er náttúruvænn. Einstaklingarnir eru líklegir til að hirða betur um það land sem þeir eiga sjálfir. Þeir þurfa að sjá til þess að það sé nýtanlegt áfram og eyðileggist ekki. Það er auðvelt að gleyma kostnaðinum við nýtingu landsvæðis ef það er í eigu ríkisins.

 

Loft- og sjávarmengun er annars eðlis en mengun á landi, þar sem loft og sjór eru ekki staðbundin. Setja ber takmarkanir á slíka mengun ef hún fer upp að hættumörkum. Ef til vill má skilgreina framseljanlegan mengunarkvóta svo að hægt sé að skipta út einni mengandi starfsemi fyrir aðra ef nýjar og betri leiðir koma til þess að nýta kvótann.

 

Ekki hefur verið sannað að hitastig á jörðinni sé að hækka vegna útblásturs lofttegunda. Ef það sannast einhvern tíma, eða miklar líkur teljast á því, má setja mengunarkvóta á viðkomandi lofttegundir. Þeir þurfa þá að vera framseljanlegir. Einnig ber að umbuna þeim sem eyða viðkomandi lofttegundum með því að þeir fái sjálfkrafa mengunarkvóta að sama magni.

bottom of page