Menntamál
Mikilvægt er að koma skólum í einkarekstur. Menntun fólks á öllum aldri yrði mun betri ef það gæti sótt hana til einkarekinna, lifandi skóla, fremur en hins einsleita ríkismenntakerfis. Hið sama gildir í rekstri skóla og annarra fyrirtækja. Skólastjórnendur fara betur með eigið fé en annarra. Bæta þarf námsefni, kennsluaðferðir, nýtingu tíma og húsnæðis og alla þjónustu við nemendur. Skólarnir munu hafa meira frelsi til að gera það sem þeir telja vænlegt. Fjölbreytni eykst og framþróun verður hraðari.
Fyrsta skrefið er að skilja á milli reksturs og greiðslu menntunar. Það er í sjálfu sér einfalt. Hver nemandi fær ávísun á tiltekna upphæð frá hinu opinbera sem hann getur framvísað í einkareknum skólum. Þannig skapast samkeppni á milli skóla, þótt ríkið greiði menntunina áfram.
Einkavæðing skólanna getur farið fram með þeim hætti að starfsfólk skólanna hafi forgang að kaupum á hlutafé í þeim. Það gæti ef til vill ýtt undir vilja starfsfólks til að breyta kerfinu. Skólastjórnendur og kennarar vita að oft getur verið erfitt að reka skóla undir stjórn ríkisvaldsins. Nýjar og ferskar hugmyndir fá ekki brautargengi og lítið svigrúm er til að bæta reksturinn. Með því að eiga sjálft hluti í skólunum fær starfsfólk þeirra tækifæri til að gera betur en áður hefur verið gert.
Að lokinni einkavæðingu skólanna má breyta kerfinu þannig að almenna reglan sé sú að hver og einn greiði sína menntun. Á sama tíma yrðu skattar lækkaðir umtalsvert. Styrkir verða greiddir til þeirra nemenda sem ekki hafa efni á námi. Þeir styrkir verða í höndum sérstakra stofnana á vegum hins opinbera. Þeim stofnunum má svo koma í hendur einkaaðila og gera greiðslur til þeirra frjálsar. Samkeppni kann að myndast á milli þeirra um hverjar styðja nemendur best.
Skattheimta kemur mikið niður á frjálsum framlögum til menntunar, rétt eins og annarra góðra mála. Ef skattarnir eru afnumdir og það er ekki lengur hlutverk ríkisins að styðja menntun lítur fólk frekar á það sem sitt hlutverk og leggur sitt af mörkum.
Sú menntun, sem nú þykir góð, mun verða ódýrari og fleiri hafa efni á henni. Fólk mun einnig hafa meira á milli handanna til að styðja aðra.
Þetta kerfi mun hvetja til meiri ábyrgðar nemenda. Þegar verið er að greiða fyrir skólagönguna er eins gott að nýta hana vel. Þeir nemendur sem fá styrki munu einnig njóta meira aðhalds en núna.
Frelsið mun hafa góð áhrif á öllum skólastigum. Á háskólastigi mun þetta sennilega draga úr ábyrgðarlausu flakki á milli námsgreina og leti sem valda nú miklu velferðartapi. Margir munu eflaust fjármagna nám sitt sjálfir með lánum. Ábatinn af háskólanámi í auknum tekjum er að jafnaði mun meiri en kostnaðurinn og er námið því auðveldlega fjármagnað með lánum á frjálsum markaði.
Hugsanlega mun sumt nám varla borga sig lengur, enda sé tekjuaukinn í framtíðinni minni en kostnaðurinn við það. Ef ekki koma til frjáls framlög verða nemendur að greiða slíkt sjálfir. Það kann að vera að námið sé göfugt og skemmtilegt, en ef það skapar ekki þann ábata fyrir aðra sem þeir vilja greiða fyrir, er það tómstundagaman. Ekki er óeðlilegt að menn greiði tómstundagaman sitt sjálfir. Sumir gera sér ef til vill ekki grein fyrir þessu, stunda nám að gamni sínu og skortir ábyrgðartilfinningu. Aukið frelsi mun bæta úr því.