top of page

Hugsjónir

Frjálshyggjumenn trúa því að hver einstaklingur hafi rétt til frelsis. Hann megi sinna hugðarefnum sínum og leita hamingjunnar á þann hátt sem hann sjálfur kýs. Hann megi þó ekki beita aðra menn ofbeldi.

 

Að skerða frelsi annars manns er ofbeldi. Því má enginn skerða frelsi annarra, hvorki einn né í félagi við aðra. Frelsisskerðing af hálfu ríkisins er venjulega ill og röng.

 

Nauðsynlegt getur talist að gera lágmarksundantekningar á frelsisreglunni til að vernda frelsið sjálft. Ef ekki kemur til slík vernd eru allar líkur á að frelsið verði lítið. Eðlilegt hlutverk ríkisvaldsins felst því í lagasetningu, löggæslu, dómgæslu og landvörnum.

 

Reglan um frelsi felur meðal annars í sér tjáningarfrelsi, trúfrelsi, fundafrelsi, ferðafrelsi, viðskiptafrelsi og félagafrelsi. Nefna má dæmi um einstakar athafnir sem leyfa ber fólki að stunda; flytja inn tómata frá útlöndum, drekka kaffi, auglýsa tóbak, stunda leigubílaakstur, tilbiðja Allah, neyta fíkniefna, synda, kaupa hlutabréf, stunda hnefaleika, versla með matvörur, smíða hús, borða hamborgara og stunda lögfræðistörf. Öll þessi réttindi leiða af sömu reglu.

 

Frelsisunnendur virða til dæmis tjáningarfrelsi í öllum tilvikum. Tjáningarfrelsi hlýtur að vera almennt því frelsi til að tjá eingöngu skoðanir sem yfirvaldinu eru þóknanlegar er ekki frelsi.

 

Menn eru mismunandi, með mismunandi smekk og skoðanir. Þeir geta ekki ætlast til þess að fá frelsi til að hafa smekk sinn og stunda áhugamál sín nema þeir virði frelsi annarra; ekki bara frelsi til að gera sömu hluti, heldur líka frelsi til að gera aðra hluti. Maður sem stundar fjallgöngur hefur ekki eingöngu skyldu til að virða frelsi annarra til að stunda fjallgöngur, heldur einnig kappakstur. Kappakstur er einum manni það sem fjallgöngur eru öðrum.

 

Frelsið er því friðvænlegt. Það felur í sér að menn virði ofbeldislausar athafnir annarra. Frjálshyggja er stefna umburðarlyndis.

 

Frelsi er til þess fallið að auka ábyrgðartilfinningu einstaklinga. Frjáls maður þarf að hugsa fyrir sig sjálfur. Ofverndun leiðir til ábyrgðarleysis og sljóleika. Það er mikilvægt að einstaklingar finni til ábyrgðar á sjálfum sér, því þegar allt kemur til alls er hamingja þeirra undir þeim sjálfum komin. Ekkert yfirvald getur komið í veg fyrir að menn fari sér að voða. Ekkert yfirvald getur séð til þess að menn séu duglegir og skapi sér heilbrigt og hamingjuríkt líf.

 

Skattar eru frelsisskerðing. Því til rökstuðnings má benda á að þræll, sem þarf að vinna fyrir aðra, er ekki frjáls. Maður sem greiðir helming tekna sinna í skatta er hálfur þræll. Ekki skiptir máli hvort valdhafar telji sig nota peningana til góðra verka. Annað dæmi sýnir einnig vel að skattar eru frelsisskerðing; hægt er að banna athafnir algerlega með því að leggja nógu háa skatta á þá, skatta sem ekki er hægt að greiða. Svo dæmi sé tekið er tollur á innflutning matar því skerðing á frelsi til innflutnings.

 

Frelsið er ekki eingöngu stutt siðferðislegum rökum, heldur einnig hagfræðilegum. Velmegun og framleiðsla eru hvergi meiri en þar sem frelsið er mest. Þegar maðurinn er frjáls, nýtur hann sín. Öll höft minnka framkvæmdagleði og sköpun.

 

Menn fara betur með eigið fé en annarra. Einkarekstur er því ákjósanlegri en ríkisrekstur. Menn leggja harðar að sér þegar þeirra eigið fé er í húfi og koma fram við það af virðingu.

 

Verð á frjálsum markaði er gott tæki til að dreifa upplýsingum. Maður sem neytir vöru fær upplýsingar um hve mikið hún kostar í gegn um verð hennar. Hann getur því minnkað neysluna í samræmi við aukinn kostnað og eftir atvikum keypt aðrar vörur í staðinn.

 

Einnig fær framleiðandi vöru upplýsingar um aukið notagildi hennar í aukinni eftirspurn neytenda. Þá hækkar verðið og það borgar sig að framleiða meira. Hann kaupir meira hráefni og vinnu. Í gegn um verð á hráefni fá framleiðendur þess einnig upplýsingar um notagildi framleiðslu sinnar.

 

Taka má einfalt dæmi. Eftirspurn eykst eftir jeppum vegna breytts lífsstíls neytenda eða meiri tekna. Bílasalar selja fleiri jeppa og panta því fleiri frá framleiðendum. Framleiðendur þurfa þá meira stál, tæki, orku, vinnuafl, húsnæði og fleira. Sumt sem þeir þurfa er svo smálegt að afar fáir jeppakaupendur hefðu getað gert sér grein fyrir því. Þeir þurfa til dæmis meiri loftræstingu, fleiri vinnugalla og fleiri rafmagnsleiðslur. Þannig aðlagast allt efnahagskerfið í gegn um frjáls viðskipti. Þetta væri aldrei hægt að skipuleggja með miðstýrðu valdi.

 

Allir skattar brengla þær upplýsingar sem berast milli manna í viðskiptum. Þess vegna valda þeir óhagkvæmni.

 

Sú aukna hagkvæmni sem fylgir frjálsræði veldur því að vöxtur tekna er meiri en ella. Lítill vöxtur tekna á hverju ári veldur gífurlegum mun þegar litið er til aðeins nokkurra áratuga. Ef tvö hagkerfi eru jöfn, tekjur jafn háar og annað tekur upp frjálsræðisskipulag en hitt miðstýrt skipulag, má til dæmis hugsa sér að frjálsa hagkerfið vaxi um 5% miðað við hitt á hverju ári. Eftir 50 ár eru tekjur í frjálsa hagkerfinu orðnar yfir ellefu sinnum meiri en í hinu ófrjálsa.

 

Það er því ljóst að hinir fátækustu í frjálsum löndum hafa það betra en hinir fátækustu í ófrjálsum löndum. Þá er ekki talin með sú hamingja sem getur falist í því að hafa frelsi til að sinna hugðarefnum sínum og ekki er mælanleg í peningum.

 

Það er mikið velferðarmál að kostir hins frjálsa markaðar verði nýttir, til dæmis í heilbrigðisþjónustu og menntun. Þarna gildir hið sama og við framleiðslu og sölu matvæla. Því meira frelsi, því meiri velferð. Alþekkt er hve illa höft og ríkisrekstur í matvöruverslun hafa reynst, bæði á Íslandi og erlendis. Biðraðir við matvöruverslanir í kommúnistaríkjunum eru enn í fersku minni. Á Íslandi eru til dæmis biðraðir í hinu ríkisrekna heilbrigðiskerfi. Þjónustan er einnig að öðru leyti mun lakari en hún myndi vera ef spítölum og læknisþjónustu yrði komið í hendur einstaklinga og félaga þeirra.

 

Með einkarekstri á heilbrigðisþjónustu og menntun myndi þjónustan verða ódýrari og betri. Þannig myndu fleiri hafa efni á henni. Lang flestir myndu hafa efni á heilbrigðistryggingum sem myndu tryggja þeim mun betri þjónustu og meiri lífslíkur en við núverandi kerfi. Fáir gætu ekki keypt slíkar tryggingar, svo fáir að auðvelt væri að hjálpa þeim með frjálsum framlögum.

 

Skattar vegna þjónustu hins opinbera við fátæka bitna mjög á frjálsum framlögum til þess fólks. Ef ríkisvaldið sæi ekki um að styðja fátæka myndu einkaaðilar gera það. Einkaaðilar hefðu ekki eingöngu meiri verðmæti til þess, heldur myndu færri og færri þurfa á aðstoðinni að halda, vegna hins mikla vaxtar í frjálsu hagkerfi, á sama tíma og meiri og meiri verðmæti væru tiltæk til að styðja þá.

 

Við frjálst hagkerfi hafa hinir fátæku bestu tækifærin til að komast í hóp hinna efnuðu. Auðvelt er til dæmis að stofna fyrirtæki og koma undir sig fótunum. Sá sem finnur leið til að skapa aukin verðmæti fær frekar notið hugmynda sinna sjálfur. Frjálsræðið er mikilvægast fyrir hina fátæku.

 

Stefna ber að frjálsræðisskipulagi í skrefum. Taka verður tillit til þess að fjöldi fólks hefur aðlagast því kerfi sem nú er og reiðir sig á að það verði þannig áfram. Ekki er raunhæft að koma frelsinu á með því að valda því fólki of hörðum skelli. Um það myndi sennilega ekki nást nægileg samstaða. Eina færa leiðin er að stíga skrefin, eitt í einu, en markvisst. Stefna má að algeru frjálsræði á nokkrum áratugum. Fræða verður fólk um frjálshyggju, svo því sé ljóst að frelsið sé öllum til heilla til lengri tíma litið. Nánar er fjallað um stefnu Frjálshyggjufélagsins í einstökum málaflokkum í öðrum köflum.

bottom of page