top of page

Siðferðismál

Almennt skal fólki vera leyft að gera það sem það kýs, svo lengi sem það beitir aðra ekki ofbeldi. Þetta er mikilvæg siðferðisregla. Ef fólk virðir ekki rétt annarra til að gera það sem þeir kjósa getur það ekki ætlast til þess að fá sambærilegan rétt sjálft. Hér á eftir er fjallað nánar um einstaka flokka sem falla undir siðferðismál.

Málfrelsi

Virða ber málfrelsi í hvívetna.Takmarkanir á tjáningu óvinsælla skoðana ber að afnema, jafnvel skoðana þeirra sem ekki hafa slíkt umburðarlyndi og eru á móti tjáningarfrelsi. Besta leiðin til að fást við skoðanir sem byggjast á fyrirlitningu og jafnvel ofbeldi er að tala um þær, ekki forðast umræður. Hugsanlega mun öfgaskoðunum vaxa fiskur um hrygg ef þær eru bannaðar. Þær verða áfram boðaðar, til dæmis í samtölum manna á milli. Það mun bara ekki gefast gott tækifæri til að svara rökum þeirra sem þær boða.

 

Það er órökrétt að telja sig fylgjandi tjáningarfrelsi, nema til tjáningar þeirra skoðana sem maður er mjög ósammála. Frelsi er rangnefni á slíkri stefnu. Alls staðar þar sem tjáningarfrelsi hefur verið skert hefur frelsi verið til að tjá skoðanir sem valdhafar eru sammála.

 

Afnema ber bann við áfengis- og tóbaksauglýsingum. Þá skoðun hlýtur að mega boða, að tiltekin tegund bjórs eða vindla sé góð, rétt eins og allar aðrar.

 

Skyldugreiðslur til fjölmiðla geta ekki staðist tjáningarfrelsi. Með slíkum greiðslum er fólk neytt til að stuðla að tjáningu skoðana, sem það er jafnvel ósammála. Það er jafnvel þungbærara að vera neyddur til að taka þátt í tjáningu skoðana sem maður er ósammála, en að vera bannað að segja meiningu sína. Afnema ber skylduáskrift að Ríkisútvarpinu hið fyrsta.

Nekt og kynlíf

Skoðanir fólks á því hvað sé sæmandi í kynferðismálum eru mismunandi. Þess vegna er frelsi mikilvægt á því sviði. Aldrei má þó láta kynferðislegt ofbeldi viðgangast.

 

Nektardans fyrir framan áhorfendur skaðar ekki þriðja aðila. Nektardansmeyjum finnst slíkur dans ekki bara skaðlaus, heldur góð tekjulind. Áhorfendum finnst hann gjarnan skemmtilegur. Þessar skoðanir ber að umbera. Nektardans ber því að leyfa, hvort sem er í lokuðum klefum eða stærri herbergjum.

 

Klám og kynlífssýningar ber að leyfa. Smekkur fólks er misjafn. Sumum finnst kynlíf tveggja manneskja jafnvel ekki merkilegra en að borða saman eða lyfta saman lóðum. Þennan smekk bera að virða. Eingöngu þannig getur manneskja vænst þess að frelsi hennar sé virt, að hún virði frelsi annarra.

 

Allt kynferðislegt ofbeldi skal vera bannað. Hafa ber í huga að ofbeldi á þessu sviði kann ekki eingöngu að felast í því að neyða fólk til kynferðislegs athæfis. Það getur líka falist í því að banna slíkt athæfi. Afskipti af kynlífi annarra eru óréttlætanleg, nema með þeirra leyfi.

 

Vændi skal vera leyft. Kynlíf er heimilt. Peningagreiðslur á milli manna eru heimilar. Kynlíf gegn greiðslu á einnig að vera heimilt. Vændi verður til staðar, hvort sem það er heimilt eða ekki. Réttaröryggi vændiskvenna verður minna ef vændið er bannað. Vændið er þá stundað þannig að ekki er hægt að fylgjast með því. Ef löglegt vændi getur ekki átt sér stað aukast líkurnar á kynlífsþrældómi. Ef vændi er löglegt, er einnig auðveldara fyrir vændiskonur að tryggja sér vernd gegn ofbeldisfullum viðskiptavinum.

 

Það er órökrétt að telja vændi ekki vera val vændiskvenna og vilja banna það, því valkosturinn, að fá ekki tekjurnar, geti verið svo slæmur. Sá sem vill banna vændi af slíkri ástæðu vill neyða vændiskonurnar til að taka enn verri kost, að þeirra mati.

Trúfrelsi

Hverjum manni skal vera heimilt að iðka þau trúarbrögð sem hann kýs. Einnig skal vera heimilt að stunda ekki trúarbrögð. Ekki er réttlætanlegt að fjármagna trúariðkun með sköttum.

Upplýsingamál

Láti fólk af hendi upplýsingar um sjálft sig í trúnaði, skal halda þann trúnað. Sjálfsagt er og eðlilegt að óska eftir upplýsingum um fólk í viðskiptum og fá heimild til að nota þær og jafnvel birta, svo lengi sem enginn er neyddur til viðskiptanna. Fyrirtækjum skal þannig vera heimilt að nota kennitölur til að skrá viðskiptamenn sína. Öðru máli gengir um upplýsingar sem fólk er neytt til að láta af hendi eða hefur látið af hendi í trúnaði. Birting skattayfirvalda á upplýsingum um skatta og tekjur fólks er þess vegna óréttlætanleg.

Íþróttir

Fólki skal vera heimilt að stunda íþróttir sem geta valdið slysum; svo sem eins og kappakstur, fjallgöngur, hnefaleika, karate, knattspyrnu, íshokkí, teygjustökk og köfun.

 

Enginn er þess umkominn að halda því fram að ánægjan eða tekjurnar sem fást úr því að stunda íþróttagrein séu ekki áhættunnar virði fyrir aðra manneskju, sem kann að hafa annan smekk en viðkomandi. Hlutverk hins opinbera er ekki að velja hvaða athæfi sé gott og hvað sé vont fyrir borgarana. Enginn getur metið það nema fyrir sjálfan sig.

Félagafrelsi

Afnema ber lögbundna skylduaðild að félögum. Skylda til að vera í félagi er jafnvel þungbærari en bann við að vera í félagi. Með félagsskyldu eru menn neyddir til aðildar að starfsemi sem þeir eru jafnvel á móti. Slíkt hlýtur að teljast alvarleg frelsisskerðing.

Jafnrétti

Frjálshyggjan er jafnréttisstefna. Hún gengur út á frelsi fólks, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð eða öðrum einkennum og athöfnum, sem ekki fela í sér ofbeldi. Það væri órökrétt að sækjast eftir frelsi sumra, en ekki annarra. Krafan til frelsis stendur veikum fótum ef maður er ekki tilbúinn að virða frelsi annarra.

 

Stundum eru aðgerðir sem ganga út á ójafnrétti framkvæmdar í nafni jafnréttis. Þær eru venjulega kallaðar „jákvæð mismunun“. Þá er til dæmis reynt með kynjakvótum að jafna fjölda fólks af hvoru kyni í starfi sem karlmenn hafa aðallega gegnt. Kona, sem ekki hefur fengið að njóta hæfileika sinna í fortíðinni, er engu betur sett þótt önnur kona fái starf sem hún á ekki skilið. Konur eru ekki saman í liði á móti körlum. Jöfnun kynjahlutfalla felur ekki í sér jafnrétti. Jafnréttið felst í því að hver manneskja sé metin að verðleikum. Ójafnrétti fortíðarinnar verður ekki leiðrétt með öðru en jafnrétti.

 

Lögþvingað fæðingarorlof er einnig brot á jafnrétti. Það gengur út á að þvinga alla til að tryggja sér möguleika á fæðingarorlofi og fórna þannig hluta af launum sínum. Þetta er framkvæmt með greiðslu tryggingargjalds á Íslandi, sem svo er notað til að greiða laun í fæðingarorlofi. Um er að ræða nokkurs konar skyldutryggingu. Það er siðferðilega rangt að þvinga fólk, sem ekki vill eða getur eignast börn, til að kaupa slíka tryggingu. Það getur ekki talist jafnrétti að neyða alla til að kaupa tryggingu sem gagnast bara sumum. Það er heldur ekki réttlætanlegt að neyða pör, sem vilja skipta með sér verkum, til að kaupa slíka tryggingu, bæði fyrir karlinn og konuna. Í þvinguninni felst þannig mismunun gagnvart mismunandi fjölskyldufyrirkomulagi.

Innflytjendur

Minnka ber hömlur á innflutningi fólks af erlendu þjóðerni til landsins. Stefna skal að sem frjálsustum innflutningi til lengri tíma litið. Réttur hins opinbera til að hindra flutning fólks frá útlöndum er jafn lítill og til að hindra ferðir fólks frá Akureyri til Egilsstaða. Þegar til landsins er komið skulu innflytjendur njóta sömu réttinda og Íslendingar, enda ber ekki að mismuna fólki eftir þjóðerni og kynþætti.

 

Það besta sem frjálsar þjóðir geta gert til að hjálpa hinum fátæku er að eiga við þær frjáls viðskipti og leyfa innflutning fólks, svo að sem flestir fái notið frelsisins. Það skýtur skökku við að þykjast vilja hag hinna fátæku sem mestan, en meina þeim inngöngu í frjálst land. Í frjálsu landi munu þeir njóta betri lífskjara en annars staðar vegna meiri kaupmáttar og tækifæra, án þess að aðrir beri af því byrðar. Enginn ber óréttlætanlegar byrðar af velferðarstyrkjum til innflytjenda þegar slíkir styrkir eru orðnir frjálsir.

 

Aukin fjölbreytni í mannlífinu er til þess fallin að auka víðsýni og fjölga möguleikum. Hver og einn getur valið hvernig hann háttar lífi sínu. Engum er skylt að taka upp erlenda menningu og siði. Vilji einstaklingar varðveita íslenska menningu, geta þeir gert það. Þeir mega þó eingöngu taka ákvarðanir fyrir sjálfa sig, ekki aðra.

 

Þrátt fyrir frjálsan innflutning fólks má þó halda uppi landamæraeftirliti, enda sé það eðlilegur hluti löggæslu og verndunar frelsis og friðar.

Áfengi og tóbak

Neysla áfengis og tóbaks skal vera leyfð fullorðnum einstaklingum. Jafnframt skal einkaaðilum vera heimilt að selja þessar vörur. Takmarkanir á afgreiðslutíma skemmtistaða, sem ekki eru í íbúðahverfum, eru óréttlætanlegar. Leyfa ber rekstur veitingahúsa og skemmtistaða án reyklausra svæða. Enginn er skyldugur til að ganga inn á slíka staði.

Önnur fíkniefni

Leyfa ber öll fíkniefni í skrefum. Taka verður mið af samskiptum við aðrar þjóðir í þessu sambandi.

 

Fíkniefnabannið fjölgar glæpum. Vegna bannsins eru fíkniefni dýrari en ella. Fíklar fara því út í glæpi til að fjármagna neyslu sína. Einnig tengist ofbeldi rukkun fíkniefnaskulda, og verða þá fjölskyldur fíkla gjarnan fyrir barðinu á rukkurum.

 

Fíkniefnasalar stunda ofbeldi til að komast upp með lögbrot sín. Þeir hóta þeim sem kunna að segja til þeirra og beita þá jafnvel ofbeldi. Fíkniefnasalar kunna einnig að fara í innbyrðis stríð til að berjast um svæði. Í fíkniefnaheiminum gilda ekki lög og reglur. Erfitt er að leita réttar síns ef maður er fíkniefnaneytandi eða -sali.

 

Hagnaðurinn af fíkniefnaviðskiptum lendir í höndum misyndismanna, sem kunna að nota peningana til að fjármagna ýmsa glæpastarfsemi.

 

Ef fíkniefni væru framleidd og seld af venjulegum, löglegum fyrirtækjum, væri fótunum kippt undan fíkniefnasölunum. Hagnaðurinn yrði minni, efnin yrðu ódýrari og ekki væri notað ofbeldi við rukkun skulda. Hægt væri að fylgjast með markaðnum, þar sem hann væri ekki lengur neðanjarðar.

 

Svipað ástand er í fíkniefnaheiminum og var til dæmis í Bandaríkjunum þegar áfengi var bannað. Glæpaklíkur léku lausum hala og fjármögnuðu starfsemi sína með áfengissölu. Ástandið batnaði gífurlega og morðum fækkaði um helming á tiltölulega skömmum tíma þegar banninu var aflétt.

 

Fíkniefnabannið gerir efnin einnig hættulegri. Þau eru framleidd við lélegar aðstæður af fólki sem þekkir misvel til. Þau kunna einnig að vera drýgð með öðrum hættulegum efnum. Stundum er efnum blandað saman án þess að neytandinn viti af því. Af þessu skapast mörg dauðsföll sem kæmu ekki fyrir ef lyfin væru framleidd af lyfjafyrirtækjum.

 

Styrkur fíkniefna er mjög mismunandi vegna bannsins. Stundum eru teknir of stórir skammtar vegna þess að fólk tekur fíkniefni sem eru sterkari en þau sem það er vant. Þetta myndi ekki gerast ef lyfjafyrirtæki framleiddu efnin. Með efnunum myndu fylgja greinargóðar upplýsingar um skammtastærð, sem og fleiri upplýsingar, til dæmis um hvaða lyfjum megi ekki blanda saman.

 

Fíkniefnabannið þrýstir mörgum í ræsið. Venjulegt, gott fólk, leiðist á glapstigu og fremur glæpi til að fjármagna neysluna. Ungt fólk lendir í fangelsi og er þar í verri félagsskap en það myndi hitta fyrir í skóla. Þannig vindur óhamingjan upp á sig.

 

Miklu skynsamlegra er að leyfa efnin og höfða til ábyrgðartilfinningar fólks. Fólk verður að skilja að það er ekki hlutverk annarra að taka ákvarðanir fyrir það. Maður ber sjálfur ábyrgð á eigin lífi. Með slíkri ábyrgð er hægt að forðast þær freistingar sem kunna að mæta manni á lífsleiðinni.

 

Það er jafn óréttlætanlegt að banna neyslu ólöglegu fíkniefnanna og það er að banna áfengi og tóbak. Hvað sem hættunni af neyslunni líður gilda sömu grundvallarsjónarmið. Um er að ræða hættuleg efni sem draga fólk til dauða. Þau draga þó engan til dauða nema þann sem þeirra neytir. Þess vegna er óheimilt að banna neysluna.

 

Óljóst er hvort neysla eykst ef fíkniefni eru leyfð. Gögn virðast ekki benda til þess. Hvað sem því líður eru stærstu hlutar fíkniefnavandans komnir til vegna bannsins. Ástandið batnar ef efnin verða leyfð.

bottom of page